Bandarísk stjórnvöld hafa ákært tölfræðirannsóknarfyrirtækið Palantir sem löngum hefur haft á sér orð fyrir að ráða bestu og hæfileikaríkustu verkfræðingana í Sílikondal vegna ætlaðrar mismununar í ráðningum.

Sakað um mismunun

Nafn fyrirtækisins kemur úr Hringadróttinssögu, en vitringarnir áttu þar sérstaka steina með þessu nafni sem gerði þeim kleyft að sjá fjarlæga hluti.

Ráðuneyti verkalýðsmála sakaði í yfirlýsingu fyrirtækið um að mismuna gagnvart fólki af asískum uppruna, en þeir væru í miklum meirihluta þeirra sem sóttu um vinnu hjá fyrirtækinu.

Gætu misst samninga við ríkið

Ef ákæran nær fram að ganga gæti fyrirtækið misst samninga sína við bandarísk stjórnvöld og lokað fyrir að það fái nýja samninga nema það lagi hina ætluðu mismunun.

Slíkt bann yrði mikill skaði fyrir fyrirtækið sem á rætur sínar í því að vinna fyrir öryggisstofnanir ríkisins í baráttunni gegn hryðjuverkum. Fyrirtækið hefur á síðari árum þó aukið umsvif sín og hafið að selja þjónustu sína til einkafyrirtækja, þar á meðal til margra stórra banka, og er þjónusta við einkafyrirtæki nú orðið að meirihluta í rekstri þess.

Eitt verðmætasta tæknifyrirtækið

Fyrr á árinu nýtti það í samstarfi við Credit Suisse tölfræðirannsóknir til að meta þá sem nýttu sér innherjaupplýsingar í viðskiptum.

Fyrirtækið er eitt verðmætasta tæknifrumkvöðlafyrirtækið í Sílikonadal í Kaliforníu, rétt á eftir Uber og Airbnb, en á síðasta ári safnaði það fjármagni sem nam um 20 milljörðum dala, eða 2.285 milljörðum króna.

Byggir á lélegum tölfræðirannsóknaaðferðum

Fyrirtækið hafnar ásökununum. „Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir okkar til að sýna afleiðingar ráðningaraðferða okkar, þá hefur ráðuneyti verkalýðsmála nýtt lélega og takmarkaða tölfræðirannsóknaraðferðir byggða á vinnulýsingu frá árinu 2010 til 2011,“ segir í yfirlýsingunni.

Kvörtunin kemur til vegna þess að fólk af asískum uppruna var um 73-85% af umsækjendum um þrjár mismunandi gerðir af stöðum sem voru í boði, en þeir enduðu á að fá minna en helminginn af stöðunum af hverri gerð, að sögn ráðuneytisins.

Að sama skapi hafi einungis fjórar af 21 stöðu í starfsnámi farið til fólks af asískum uppruna þrátt fyrir að mun hærra hlutfall þeirra hafi sótt um. Kvörtunin segir líkurnar á að það sé tilviljun sé „einn á móti milljarði.“