Páll Bragi Kristjónsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fjármálasviðs Hafskips, segir í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í dag að enginn fótur sé fyrir fullyrðingum Gunnars Þ. Andersen, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, um rekstur Hafskips á sínum tíma. Páll Bragi gagnrýnir Gunnar harðlega í greininni.

Gunnar sagði meðal annars í viðtali við Viðskiptablaðið í síðustu viku að gífurleg óstjórn hefði verið hjá Hafskip og að það hefði farið í hlutafjárútboð á grunni vísvitandi rangra upplýsinga sem væri alvarlegt mál.

Páll Bragi segir meðal annars í grein sinni að umræddar yfirlýsingar Gunnars séu vítaverðar í ljósi þess að fyrrverandi stjórnendur Hafskips hefðu fyrir sakadómi verið sýknaðir af öllum ákæruatriðum tengdum hlutafjárútboðinu „og þeim atriðum ákærunnar var ekki vísað til Hæstaréttar."

Páll Bragi segir að Gunnar beri greinilega jafnlitla virðingu fyrir sannleikanum í Hafskipsmálinu nú og fyrr á árum og haldi til streitu röngum sakargiftum.

Hann spyr að lokum hvort Gunnar umgangist sannleikann af jafnmikilli léttúð í þeim erfiðu málum sem FME þurfi að glíma við undir hans stjórn.

Nánar má sjá grein Páls Braga Kristjónssonar í Viðskiptablaðinu í dag.