Laun Páls Magnússonar, útvarpsstjóra, fyrir reikningstímabilið 1. september 2011 til 29. febrúar 2012, námu alls 6,9 milljónum króna og hækkuðu því um 300 þúsund krónur á milli ára.

Auk þess voru honum greiddar 4,6 milljónir vegna leiðréttingar á framkvæmd úrskurðar Kjararáðs 23. febrúar 2010.

Þetta kemur fram í árshlutareikningi RÚV sem birtur var í gærkvöldi. Hagnaður Ríkisútvarpsins (RÚV) á tímabilinu var um 9 milljónir króna, samanborið við hagnað upp á rúmar 257,5 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Í skýringum í árshlutareikningnum kemur fram að með hliðsjón af fyrirliggjandi lögfræðiálitum og til samræmis við framkvæmd úrskurðar Kjararáðs hjá öðrum opinberum hlutafélögum var fyrrnefndur  úrskurðurinn látinn taka gildi 1. mars 2011.

Mánaðarlaun Páls á tímabilinu námu því um 1.150 þúsund krónum á mánuði, fyrir utan fyrrnefnda greiðslu. Hækkunin á tímabilinu, þ.e. úr 6,6 milljónum króna í 6,9 milljónir króna, er því 50 þúsund krónur á mánuði.

Í árshlutareikningnum kemur fram að launakostnaður RÚV til ellefu helstu stjórnenda félagsins jókst um 11,3 milljónir króna á milli ára á meðan stöðugildum fjölgaði um eitt. Launakostnaður til helstu stjórnenda nam 57,8 milljónum króna á tímabilinu.