Skúlaverðlaunin voru afhent í fyrsta sinn á sýningu Handverks og hönnunar í Ráðhúsi Reykjavíkur 31. október síðastliðinn.

Verðlaunin sem styrkt eru af Samtökum iðnaðarins hlaut Páll Garðarsson fyrir nýstárlegan jólatréstopp.

Auk hans hlutu Margrét Guðnadóttir og Dýrfinna Torfadóttir sérstakar viðurkenningar.

Þetta kemur fram á vef Samtaka iðnaðarins (SI).

Á sýningunni sem haldin var í Ráðhúsi Reykjavíkur mátti sjá fjölbreytt úrval af handverki, listiðnaði og hönnun. Þar á meðal voru munir úr leðri og roði, skartgripir, glermunir, nytjahlutir úr leir, fjölbreyttar textílvörur, hlutir úr hornum og beinum og ýmsir trémunir.

Þetta er í þriðja skipti sem slík sýning er haldin. Í tilefni hennar var efnt til verðlaunasamkeppni um bestu nýjungina meðal þátttakenda. Rúmlega 40 tillögur bárust frá 18 aðilum. Valnefnd skipuðu Rut Káradóttir, innanhússarkitekt og Stefán Pétur Sólveigarson vöruhönnuður.

Verðlaunin eru kennd við Skúla Magnússon fógeta og frumkvöðul smáiðnaðar í Reykjavík.