Þeirri gagnrýni á Samkeppniseftirlitið hefur stundum verið varpað fram að fyrirtæki finni sig knúin, af efnahagslegum ástæðum, til að gera sátt við eftirlitið þótt þau telji sig saklaus af þeim brotum sem á þau eru borin. Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir slíka gagnrýni ekki eiga rétt á sér.

„Ég hef heyrt þessa gagnrýni og þvertek með öllu að hún eigi rétt á sér. Við erum mjög meðvituð um að skapa ekki aðstæður þar sem fyrirtæki er kúgað til að gera sátt. Það er mjög slæmt fyrir samkeppnisréttinn ef fyrirtæki fara í ríkum mæli að sætta mál þar sem þau eru sjálf sannfærð um að þau hafi ekki gert neitt rangt. Við brýnum því fyrir fyrirtækjum að gera ekki sátt við eftirlitið ef þau eru ekki sannfærð um að þau séu með tapað mál í höndunum,“ segir Páll Gunnar.

Hann segir að oft sé raunar ákjósanlegt fyrir samkeppnisréttinn að láta reyna á lögin og fá svör við þeirri spurningu sem um ræðir frá áfrýjunarnefnd og dómstólum.

„Forsenda sáttar er líka að frumkvæði komi frá fyrirtækinu. Samt heyrir mað­ur það stundum eftir á að fyrirtæki sem voru í þessum sporum kvarti undan því að það hafi neyðst til að gera sátt. Það er slæmt þegar menn kvarta með þessum hætti eftir á, en það getur verið erfitt að viðurkenna brot. Við ákvörðun um að leita sáttar við eftirlitið fer eðli máls samkvæmt fram hagsmunamat, þar sem vinningslíkur eru metnar andspænis því að fá lausn á málinu fyrr og greiða lægri sekt. Eftirlitið hefur engan hag af því að neyða fyrirtæki í sátt sem þau í raun vilja ekki gera.“

Páll Gunnar er í ítarlegu viðtali í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .