Samkeppniseftirlitið hefur bent á leiðir til þess að nýta betur krafta samkeppninnar á ýmsum sviðum landbúnaðarins, segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins. Rætt er við Pál í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins þar sem úttekt er á kjötverðshækkunum og samkeppnisaðstöðu á markaðinum.

„Síðast bentum við á þetta í skýrslu sem kom út á þessu ári um verðþróun og samkeppni á dagvörumarkaði. Við bentum á að lítið hafi verið gert til þess að bregðast við tilmælum okkar. Eina skýra dæmið sem er um verulegar framfarir í átt til samkeppni var þegar samkeppnisyfirvöld flettu ofan af víðtæku samráði á grænmetismarkaði. Því fylgdu tilmæli gefin út árið 2001 um hvernig breyta ætti aðstoð og opna markaðinn. Stjórnvöld fóru að tilmælunum og það leiddi til þess að verð til neytenda lækkaði en um leið jókst innlend framleiðsla og markaðshlutdeild innlendra framleiðenda. Þetta er því gott dæmi um hvernig nýta má krafta samkeppninnar til þess að bæta stöðu neytenda og framleiðenda,“ segir Páll.

Eftirlitið hefur lagt til að svipaðar leiðir verði farnar á öðrum sviðum landbúnaðar. „Sums staðar hefur einmitt verið farið í þveröfuga átt eins og í mjólkuriðnaði, þar sem löggjafinn heimilaði samruna og samráð mjólkurafurðastöðva sem ella teldist vera ólögmætt. Reynslan sýnir að það hefur skaðað bæði neytendur og framleiðendur.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.