Hagræðing á fjármálamarkaði er eitt mikilvægasta verkefnið sem Ísland stendur frammi fyrir þegar kemur að framþróun markaðarins, að mati Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Í pistli, sem birtur er á vefsíðu eftirlitsins, segir hann að nauðsyn hagræðingar sé öllum ljós. „Rekstrarkostnaður stóru íslensku viðskiptabankanna þriggja nam rúmum 60 milljörðum króna á síðasta ári. Þetta er hvorki meira né minna en 27% raunhækkun útgjalda frá 2009, eða á tveimur árum. Að hluta til kemur þessi útgjaldahækkun til vegna yfirtöku bankanna á minni fjármálafyrirtækjum og hærri opinberum gjöldum. Það skýrir þó ekki nema hluta þessarar miklu raunútgjaldaaukningar. Laun hafa þannig hækkað meira hjá fjármálafyrirtækjum en í öðrum atvinnugreinum samkvæmt nýlegum upplýsingum.“

Páll segir að hagræðingu í fjármálakerfinu megi ná fram með ýmsum hætti. Það sé hægt með tæknilegum umbætum, aukinni sjálfvirkni, betri nýtingu mannauðs, endurskoðun útibúanets banka og sparisjóða og aukinni samvinnu milli hinna síðast nefndu. Besta leiðin til aukinnar hagræðingar sé hins vegar að styrkja samkeppni, því hún örvi og hvetji til góðra verka. Aðgerðir sem hamli samkeppni séu líklegar til að hafa þveröfug áhrif.