Sektir vegna samkeppnisbrota eru ekki endilega of háar ef horft er til þess að þetta er oft á tíðum ítrekunarbrot, sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins á fundi Félags atvinnurekenda í morgun. Fjallað var um samkeppnismál á fundinum.

Páll Gunnar var ekki sammála Heiðrúnu Lind Marteinsdóttir, lögmanni á LEX, sem hélt fyrirlestur á fundinum og sagði ekki  væru teknar til greina málsbætur við ákvörðun sekta. Páll nefndi þá Mjólkursamsölumálið og rifjaði upp að árið 2006 hefði fyrirtækið misnotað markaðsráðandi stöðu sína. Þá hefði málið verið talið það flókið að ákveðið hefði verið að sekta ekki. Eins hefði Icelandair verið fundið sekt um að misnota markaðsráðandi stöðu sína 2003 en ekki hafi verið sektað. Hinsvegar hafi fyrirtækið aftur nokkrum mánuðum síðar endurtekið brotið. „Því miður er það þannig að fyrirtæki sem hafa verið talin markaðsráðandi hafa verið að brjóta af sér og gera það aftur“, sagði Páll.

Heiðrún Lind segir að ef nákvæmlega sama brotið eigi sér stað á sama markaði má hafa minni samúð með fyrirtækjum sem þurfi að greiða sektir. Hinsvegar sé það sjaldan þannig að tvö mál séu nákvæmlega eins.