Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir að gert sé ráð fyrir því að rannsókn eftirlitsins á fyrirtækjaráðgjöf bankanna verði lokið fyrir áramót. Í sumar sendi eftirlitið bréf til fimmtán fyrirtækja, sem starfa á þessum markaði.

Meðal þess sem Samkeppniseftirlitið vildi fá að vita var fyrir hvern þessi verkefni voru unnin, hverjum var boðið að taka þátt í viðkomandi útboðum og hver fékk á endanum að kaupa fyrirtækið sem til sölu var. Þá vildi eftirlitið fá að vita hverjar tekjur fjármálafyrirtækjanna hafa verið af starfseminni. Upplýsingaöflun af þessu tagi er gjarnan fyrsta skrefið í svokallaðri kortlagningu á viðkomandi markaði. Eftirlitið vill með öðrum orðum fá að vita hve stór markaðurinn er og hver markaðshlutdeild viðkomandi aðila er á honum.

Segir hann að meðal þess sem verið sé að skoða sé hvort ítök stóru bankanna í skuldsettum fyrirtækjum hafi leitt til skekktrar samkeppnisstöðu í fyrirtækjaráðgjöf, þar á meðal hvort bankarnir beiti áhrifum sínum til að tryggja fyrirtækjaráðgjöfum sínum verkefni, sem geta verið ábatasöm fyrir bankana.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum Tölublöð hér að ofan.