Samtök atvinnulífsins þurfa að girða sig í brók og huga betur að samkeppnismálum.

Þetta sagði Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, á fundi Samtaka atvinnulífsins (SA) um samkeppnismál sem nú stendur yfir.

SA birti í morgun ítarlega skýrslu um samkeppnislögin og framkvæmd þeirra. Þar kom meðal annars fram að Samkeppniseftirlitið er sú opinbera stofnun sem atvinnurekendur eru hvað ósáttastir við.

Páll Gunnar svaraði fyrir eftirlitið í erindi sínu á fundinum. Hann sagði augljóst að almenningur kallaði eftir því að Samkeppniseftirlitið léti til sín taka í auknum mæli og brygðist við aukinni fákeppni.

Páll Gunnar fór hörðum orðum um skýrslu SA og sagði þær tillögur sem þar koma fram til þess fallnar að draga úr virkni samkeppnislaga. Þannig væri skýrslan skrifuð með hagsmuni stærri aðila í huga og tillögur hennar ekki til þess fallnar að bæta stöðu minni fyrirtækja.

Eitt af því sem kvartað er undan í skýrslunni er að skortur sé á leiðbeiningum frá Samkeppniseftirlitinu. Páll Gunnar svaraði því sérstaklega og sagði stofnunina hafa ítrekað gefið út leiðbeiningar, skýrslur, uppfært heimsíðu sína og notað samfélagsmiðla til að koma skilaboðum og leiðbeiningum á framfæri. Þá sagði Páll Gunnar að fyrri úrskurðir stofnunarinnar ættu að vera fordæmisgildandi í allflestum tilvikum, sem um leið fælu í sér leiðbeiningar til markaðsráðandi aðila.

Páll Gunnar vék einnig að þeirri gagnrýni sem komið hefur fram um langa málsferðferð mála. Hann sagðist skilja þá gagnrýni en sagði um leið að málsmeðferð hér á landi væri litlu lengri en í samanburðarhæfum ríkjum.

Í lok erindis síns vék Páll Gunnar orðu sínum að Samtökum atvinnulífsins og sagði samtökin lítið hafa fjalla um eða sinnt samkeppnisálum. Þannig væri t.d. engar upplýsingar að finna á vef samtakanna og undir sérstökum lið um samkeppnismál væri síðasta færsla frá árinu 2007.