Aðgerðir sem eiga að efla samkeppni hér á landi og koma í veg fyrir samkeppnisbrot líkjast því að ausa Atlantshafið, að mati Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Einkum á þetta við þegar horft er til fjárveitinga í málaflokkinn. „Mér er til efs að margir geri sér grein fyrir því hversu mikil eftirspurn er eftir afnámi samkeppnishindrana á Íslandi í dag. Þess vegna munum við, þessar 24 manneskjur sem störfum í Samkeppniseftirlitinu, aldrei standa undir ýtrustu væntingum ykkar hinna, þótt ýmsu verði komið í verk. Verkefnið er einfaldlega það stórt í samanburði við fjárveitingarnar,“ skrifar hann í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Tilefni skrifar Páls Gunnars er fundur Félags atvinnurekenda um framtíðarhorfur í íslensku efnahagslífi sem hann sat á miðvikudag. Á fundinum var rætt um starfsumhverfi fyrirtækja og samkeppnismál frá ýmsum ólíkum sjónarhornum. Sjónarhorn smærri fyrirtækja var ráðandi. Páll Gunnar segir að alltof oft séu það hagsmunir stærstu fyrirtækjanna sem ráða umræðu um samkeppnismál.

Í greininni segir hann Samkeppniseftirlitið hafa lagt lóð sitt á vogarskálarnar með ýmsum hætti til að auka samkeppni hér. Heimasíðan, fésbókin, tvítið, ráðstefnur, leiðbeiningafundir og stuttmyndagerð séu dæmi um það.

Þurfa að sýna tennurnar

Páll Gunnar kemur jafnframt inn á það hversu langan tíma það getur tekið Samkeppniseftirlitið að birta úrlausnir sínar. Mikilvægt sé að eftirlitið vandi rannsóknir sínar, skapi varnaðaráhrif með því að uppræta samkeppnisbrot fyrirtækja svo viðskiptavinir fyrirtækja þurfi ekki að taka á sig tjónið sem fyrirtækin valda:

„Við sem þar vinnum erum sífellt að leita að leiðum til að koma í veg fyrir tafir af völdum fyrirtækja sem sæta rannsókn. Einnig leitum við aðferða til að hraða málum hjá okkur að öðru leyti. Dæmi um það er að mjög mörg mál sem við höfum skoðað frá hruni hefjast á forathugun. Slík forathugun gefur okkur færi á að leggja fyrsta mat á málið og forgangsraða því áður en lengri málsmeðferð hefst. Í mörgum tilvikum enda mál eftir forathugun með tilmælum eða viðvörunum til fyrirtækja sem kvartað er yfir. Og Samkeppniseftirlitið á að vera fljótt, leiðbeinandi og vel tennt. Mikilvægasta skylda þess er að skapa varnaðaráhrif með því að uppræta brot fyrirtækja og hindranir opinberra aðila með sektum og annarri íhlutun. Brot á samkeppnislögum er m.a. aðferð fyrirtækja til þess að koma tjóni hrunsins yfir á viðskiptavini sína og þar með neytendur. Við megum aldrei falla í þá gryfju að sýna slíkri rányrkju skilning eða linkind. Hrunið kenndi okkur öllum að eftirlitsstofnanir eiga að hafa beittar tennur og nota þær. Annars hlustar enginn og allt fellur í sama farið.“