Það er almennur ósiður á hlutabréfamarkaði að greiða arð út í öðru en beinhörðum peningum. Þegar fólk fjárfestir á markaði á það að geta gert kröfu um að fá arð greiddan í peningum en ekki öðrum pappírum.

Þetta sagði Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, á morgunverðarfundi Kauphallarinnar, Landssamtaka lífeyrissjóðanna og Samtaka fjárfesta sem nú stendur yfir.

Páll tók dæmi um arðgreiðslu Íslandsbanka árið 2006. Þar hefði arður verið greiddur út í hlutabréfum á undirverði, þ.e. bréfum undir markaðsvirði. Þetta hefði orðið til þess að arðgreiðslustefnan hafi verið mjög lítil.

Páll nefndi annað dæmi, arðgreiðslu Straums-Burðarás árið 2006. Þá hafi félagið greitt út arð í formi bréfa í öðrum félögum, t.d. Icelandic Group. Þetta hafi þýtt að meðalhluthafi hafi fengið bréf í Icelandic Group að verðmæti 17 þús.kr. Því fylgi einfaldlega kostnaður fyrir minni hluthafa.

Páll sagði þessi dæmi og fleiri vera dæmi um hegðun sem ekki ætti að sjást á markaði. Hann sagði þó að fjárfestar og fjölmiðlar gætu haft áhrif á þetta með því að spyrja gagnrýnna spurninga. Hann vonaðist til þess að andrúmsloftið á aðalfundum skráðra fyrirtækja myndi breytast frá því sem áður var þegar aðeins fáir vildu láta í sér heyra og spyrja gagnrýnna spurninga.

Þá sagði Páll að stjórnendur skráðra fyrirtækja þyrftu að meta hvort þeir sjálfir eða hluthafar, væri betur til þess fallnir að meðhöndla það fjármagn sem skapast af hagnaði.