„Þetta var mjög skemmtilegur viðburður. Ég held að hann sé vel þess virði fyrir fyrirtæki eins og Marel,“ segir Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar.

Hann var gestgjafi fulltrúa Marel þegar forstjórinn Theo Hoen og Árni Oddur Þórðarson, stjórnarformaður Marel, opnuðu Nasdaq-markaðinn á MarketSite við Times Square í New York við hátíðlega athöfn í gær. Sigsteinn Grétarsson, aðstoðarforstjóri Marel, og fjármálastjórinn Erik Kamen voru viðstaddur athöfnina ásamt fleiri Íslendingum, s.s. úr Kauphöllinni hér og frá Marel.

Áhorfendur voru beint ekki margir á staðnum enda er Nadaq-markaðurinn að öllu leyti rafrænn og því hvergi að finna þann ys og þys sem einkennir aðra hlutabréfamarkaði, s.s. New York Stock Exchange. Hins vegar hafa helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna sem fjalla um viðskipti vestra aðstöðu á Nasdaq-markaðnum og sýndu þeir frá honum í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðvum.

Sömuleiðis var sýnt frá athöfninni og opnuninni ásamt kynningarefni frá Marel á skjá utan á MarketSite-turninum yfir Times Square. Eins og sjá má á myndinni er skjárinn geysistór og jafngildir nokkurra hæða blokk.

„Þetta er góður tengslaviðburður fyrir fyrirtæki og þá ekki síst þau sem hafa viðskiptahagsmuna að gæta vestanhafs,“ segir Páll.

Að lokinni athöfninni fór hersingin til höfuðstöðva Sameinuðu þjóðanna. Jón Ingi Herbertsson, sem starfar á upplýsingadeildinni en var áður upplýsingafulltrúi Marel þar leiddi gestina um svæðið og var m.a. fylgst með aðdraganda að árlegu kjöri fimm ríkja um sæti í Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna. Rúanda, Lúxemborg, Argentína, Suður-Kórea og Ástralía náðu þar sæti en fulltrúar Finna, Bútan og Kambódíu sátu eftir með sárt ennið.

Gengið hefur hækkað um 5.280%

Kauphöllin hér er hluti af NasdaqOMX-kauphallarsamstæðunni. Tilefni opnunarinnar vestra var ærið enda voru í sumar liðin 20 ár síðan hlutabréf Marel voru skráð á markað hér á landi. Meðalávöxtun hlutabréfanna hafa verið yfir 20% á ári og meðalraunávöxtun um 16% að teknu tilliti til verðbólgu.

Gengi hlutabréfa Marel stóðu í 2,5 krónum á hlut á fyrsta viðskiptadegi í júní árið 1992. Það er nú í 134,5 krónum á hlut og nemur gengishækkunin á þessu 20 ára tímabili því  5.280%.