Páll Hreinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis, segir nýfallinn dóm í Hæstarétti, þar sem dómari þurfti að víkja sæti vegna ummæla sem hann hafði látið falla um mál sem hann síðan dæmdi í, eigi ekki við hæfi Sigríðar Benediktsdóttur, nefndarmanns í rannsóknarnefndinni.

Sem kunnugt er lét Sigríður ummæli falla um aðdraganda bankahrunsins hér á landi í viðtali við skólablað Yale-háskólans þar sem hún starfar sem kennari. Um þetta mál var fjallað á vef Viðskiptablaðsins nýlega.

„Sá munur er á þessum dómi og því tilviki sem Sigríði varðar að dómurinn varðar hæfi dómara sem fer eftir öðrum og mun strangari hæfisreglum en um hæfi nefndarmanna gildir,“ segir í Páll í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins. „Um dómara gildir m.a. 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, 70. gr. stjórnarskrárinnar og 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, en um hæfi nefndarmanna nefndarinnar gildir 3. gr. stjórnsýslulaga. Þá er sá munur að dómarinn fjallaði um það álitaefni sem leysa átti úr á meðan Sigríður fjallaði með almennum hætti um þau vandamál sem við var að glíma. Tilvikin eru því ólík og réttarreglur þær sem verið er að byggja á eru það einnig. Af þeim sökum hefur hinn tilvitnaði dómur ekki fordæmisgildi í máli Sigríðar enda ekki byggður á sömu lagareglum.“