Páll Hreinsson hæstaréttardómari verður formaður rannsóknarnefndar um bankahrunið. Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, verður einnig í nefndinni.

Þuríður Backman, alþingismaður sem situr í forsætisnefnd Alþingis, staðfesti þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

Í nefndinni eiga að sitja þrír aðilar og mun forsætisnefnd þingsins skipa þá. Ekki liggur fyrir hver þriðji aðilinn verður.

Hlutverk nefndarinnar verður, samkvæmt nýsamþykktum lögum frá Alþingi, að leita sannleikans um aðdraganda og orsök falls íslensku bankanna 2008 og tengdra atburða.

Þá skal nefndin leggja mat á hvort um mistök eða vanrækslu hafi verið að ræða við framkvæmd laga og reglna um fjármálastarfsemi á Íslandi og eftirlit með henni, og hverjir kunni að bera ábyrgð á því.