Tilnefningarnefnd Sýnar hefur lagt til að Páll Gíslason komi inn í stjórn félagsins í stað Hilmars Þórs Kristinssonar sem gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Páll er rafmagns- og tölvunarverkfræðingur sem hefur á undanförnum fjórtán árum stofnað og leitt tvö fyrirtæki í hátíðniviðskiptum (e. high frequency trading).

Í skýrslu nefndarinnar fyrir aðalfund félagsins þann 19. mars næstkomandi er lagt til að stjórn Sýnar verði að öðru leyti óbreytt. Hún yrði því eftirfarandi:

  • Hjörleifur Pálsson, stjórnarformaður
  • Páll Gíslason
  • Petrea Ingileif Guðmundsdóttir
  • Sigríður Vala Halldórsdóttir
  • Tanya Zharov

Nefndin leggur einnig til að þau Óli Rúnar Jónsson og Þyrí Dröfn Konráðsdóttir skipi áfram varastjórn félagsins. Í tilnefningarnefndinni sitja Þröstur Olaf Sigurjónsson, Hjörleifur Pálsson og Ragnheiður S. Dagsdóttir sem er formaður nefndarinnar.

Stofnað tvö fyrirtæki í hátíðniviðskiptum

Páll, fæddur 1976, er rafmagns- og tölvuverkfræðingur sem hefur á undanförnum fjórtán árum stofnað og leitt tvö fyrirtæki í hátíðniviðskiptum (e. high frequency trading) með starfsemi í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi og Ástralíu. Umrædd fyrirtæki eru Keilir Partners, sem hóf starfsemi árið 2018 og Páll rekur í dag ásamt  World Financial Desk LLC, sem var stofnað árið 2007 og selt til Crabel Capital Management árið 2015.

Áður en Páll snéri sér að fjármálamörkuðum hafði hann starfað fyrir þrjú sprotafyrirtæki. Hann þróaði algrím fyrir hljóðkerfi hjá Audyssey Labs í Los Angeles, að loknu framhaldsnámi, en þar áður starfaði hann við fjarskiptakerfi hjá Íslandssíma og hjá Petromodel við þróun tækis til að greina og flokka möl.

„Tilnefningarnefnd metur að Páll geti styrkt stjórn Sýnar með menntun sinni og reynslu á sviði tækni og fjarskipta. Páll hefur yfir tuttugu ára reynslu af rekstri hátæknifyrirtækja á alþjóðlegum mörkuðum, og er það mat nefndarinnar að reynsla hans geti nýst vel því markmiði Sýnar að vera áfram leiðandi í innleiðingu nýrrar tækni,“ segir í skýrslu nefndarinnar.