„Þetta er greiðasemi að gamni gerðu fyrir vini mína. En ég er ekki að fara að leggja fyrir mig auglýsingalestur," segir Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri Ríkisútvarpsins (RÚV). Á öldum hljóðvakans hefur í vikunni heyrst auglýsing um tónleika þeirra Björgvins Halldórssonar og Bubba Morthens í Hörpu í apríl. Páll les auglýsinguna. Þessi risanúmer í tónlistarsögu þjóðarinnar hafa aldrei áður blásið til tónleika saman þótt þeir hafi sungið saman dúett í nokkrum lögum.

Páll sagði upp sem útvarpsstjóri RÚV í desember í fyrra og sagðist ekki njóta lengur trausts stjórnar í kjölfar mikilla uppsagna. Páll er með 12 mánaða uppsagnarfrest. Hann fær því greidd laun fram að næstu jólum. Laun Páls námu 1.220.777 krónum á mánuði og árslaunin tæpum 15 milljónum króna.

Páll segir í samtali við VB.is þá Björgvin og Bubba hafa leitað til sín og þeim þótt fyndið að fá hann til að lesa inn á auglýsingu um tónleikana.

Páll hefur ekki lesið inn á auglýsingu síðan hann auglýsti föt klæðskerans Sævars Karls með eftirminnilegum hætti í kringum árið 1985.

Þar sagði Páll :

„Ég hef einfaldan smekk, ég vel aðeins það besta, fötin frá Sævari Karli, Bankastræti 9.“