Eitt af því sem reglulega er rætt um og hefur meðal annars komið inn á borð útvarpsstjóra er þátttaka einstakra starfsmanna RÚV í þjóðfélagsumræðunni og mögulegt brot á hlutleysisreglum RÚV. Þannig hefur Egill Helgason verið gagnrýndur fyrir að hylla og hallmæla einstaka mönnum og stjórnmálaflokkum á bloggi sínu en á sama tíma að stjórna eina þjóðmálaþættinum í ríkissjónvarpinu, Silfri Egils.

Þess utan hefur fréttastofa RÚV einnig verið gagnrýnd en sl. vetur var fréttastofan sökuð um að taka upp málstað ríkisstjórnarinnar í bæði Icesave málinu og eins aðildarumsókninni að Evrópusambandinu (ESB).

Í ljósi þeirrar umfjöllunar og gagnrýni sem haldið hefur verið á lofti varðandi fyrrnefnd atriði er ekki úr vegi að spyrja Pál Magnússon, útvarpsstjóra, um hans skoðun á þessu. Aðspurður segir Páll að RÚV sé vakandi fyrir þessu á hverjum degi, hann telji sjálfur að jafnvel þótt einstaka fréttamenn hefðu ákveðnar skoðanir á ákveðnum málum kæmust þeir ekki upp með að láta þær hafa áhrif á fréttaflutning sinn hjá RÚV.

Páll svarar einnig gagnrýninni á Egil Helgason og segir að á RÚV hafi menn í misjafnlega löngum taumi til að segja skoðanir sínar og taka þátt í umræðu.

„Stystur er taumurinn hjá fréttamönnum. Við myndum aldrei líða það að fréttamenn væru að blogga eða tjá sig um mál sem þeir síðan þurfa að fjalla um í fréttum. Það myndum við heldur ekki líða í Kastljósinu, þar er þó heldur lengri taumur en í fréttunum sjálfum,“ segir Páll.

Lengsti taumurinn sem RÚV leyfir má finna í manni eins og Agli Helgasyni. Hann er með þátt sem er meira persónutengdur en flestir aðrir sem eru hér á dagskrá en það breytir þó ekki því að þátturinn lýtur auðvitað öllum þeim grundvallarlögmálum sem RÚV starfar eftir og er endanlega á ritstjórnarlegri ábyrgð útvarpsstjóra eins og aðrir þættir. Menn mega þó ekki rugla saman þáttunum og blogginu hjá Agli þótt nafnið sé það sama, sem er reyndar frekar óheppilegt. Ég ber sem sagt enga ábyrgð á blogginu hans Egils!“

En einhverjir myndu svara því til að Egill fái algjörlega lausan taum. Er það rétt?

„Nei, hann er ekki laus en hann er lengri en margir aðrir,“ segir Páll.

„Ég á sjálfur hins vegar mjög erfitt með að henda reiður á því hvar pólitísk samúð Egils Helgasonar liggur því hún er á mjög mismunandi stöðum eftir tímabilum. Það hefur sjálfsagt átt þátt í taumlengdinni hjá Agli að hans, ef við getum sagt dómharka, virðist ganga jafnt yfir alla stjórnmálaflokka. Hann sagði þó einu sinni að hann hefði kosið Borgarahreyfinguna. Það fannst mér ekki klókt hjá honum. Sjálfsagt kjósa flestir , líka fréttamenn, en ég taldi það ekkert sérstaklega klókt hjá þáttastjórnanda hjá RÚV að lýsa því yfir hvaða flokk hann hefði kosið.“

Páll segir að sér sýnist sem svo að flestir verði fyrir barðinu á Agli. Erfitt sé að sjá að hann sé að hygla eða hallmæla einum stjórnmálaflokki umfram annan.

„Hann er einfaldlega krítískur samfélagsrýnir, lætur vaða hér á súðum, og hefur ekki alltaf sömu skoðun á milli þátta,“ segir Páll.

„En hann er dæmi um landamærin hjá okkur. Menn geta haft skoðanir á því hvort að taumurinn sé of langur eða of stuttur, en lengri en þetta verður hann varla hjá RÚV.“

Ert þú á tánum yfir þessu?

„Ekkert sérstaklega. Ég get þó viðurkennt að mér finnst óþægilegt þegar þátturinn er lagður að jöfnu við bloggið. Og þegar mér var bent á að hægt var að linka beint af vef RÚV á bloggið hjá Agli lét ég rjúfa þá tengingu. Það eru alveg gild rök gegn því að RÚV eigi að líða þáttastjórnendum sínum blogg af þessu tagi en það eru líka rök fyrir því að RÚV sé ekki of takmarkandi að þessu leyti,“ segir Páll.

Í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins er að finna ítarlegt viðtal við Pál Magnússon, útvarpsstjóra. Í viðtalinu fer Páll yfir rekstur og dagsskrárgerð RÚV, stöðu fjölmiðla almennt, umræðuna um hlutdrægni fréttastofu og þáttastjórnenda RÚV og margt fleira.