Páll Magnússon, bæjarritari í Kópavogi, segir aðspurður að niðurstaðan í formannskjörinu hafi verið vonbrigði. „Ég taldi mig eiga meira fylgi," sagði hann í samtali við Viðskiptablaðið.

Páll varð í þriðja sæti í formannskjörinu. Hann segist aðspurður ekki geta útskýrt það hvers vegna hann hafi ekki fengið fleiri atkvæði. „Aðrir verða að skýra það," segir hann.

Spurður hvort skýringin geti verið sú að flokksmenn líti svo á að hann tilheyri því sem gamalt er í flokknum, en kallað sé eftir meiri breytingum, svarar hann því til að hann hafi unnið í flokknum í 20 ár. Það kunni að hafa unnið gegn honum en ekki með honum.

Hann segist þó ótrauður halda áfram og muni áfram starfa fyrir flokkinn. „Það er enginn bilbugur á mér," segir hann að síðustu.