Sem kunnugt er missti RÚV nýlega sýningarréttinn af heimsmeistarakeppninni í handbolta til 365 sem mun sýna keppnina í læstri dagskrá. Það mál hefur verið nokkuð í umræðunni og hefur Páll Magnússon, útvarpsstjóri, gagnrýnt það að keppnin verði sýnd í læstri dagskrá.

Blaðamaður Viðskiptablaðsins rifjar upp fyrir Páli harða gagnrýni hans á 365 í fjölmiðlum í síðustu viku og spyr í framhaldinu um stöðuna á fjölmiðlamarkaði almennt.

„Það sem ég var að vísa til er þessi sérkennilega staða sem skapast hefur á íslenskum fjölmiðlamarkaði og þáttur bankanna í henni,“ segir Páll í viðtali við Viðskiptablaðið aðspurður um þetta.

„Í nóvember 2008 – strax eftir hrun – var allur fjölmiðlarekstur þess fyrirtækis sem nú heitir 365 settur inn í félag sem hét Íslensk afþreying. Þessu fylgdu milljarðaskuldir eftir linnulaust tap og gargandi vitlausar fjárfestingar áranna á undan, svo sem í blaðaútgáfu í Danmörku og Bandaríkjunum, kaupum á prentsmiðju í Bretlandi og rekstri NFS hér á Íslandi.“

Páll segir Íslenska afþreyingu hafa verið andvana fætt félag og stefnt rakleiðis í gjaldþrot, enda hafi leikurinn verið til þess gerður.

„Áður en til þess kom fékk Jón Ásgeir Jóhannesson hins vegar að kaupa alla fjölmiðlana út úr félaginu fyrir lítið en skilja stærstan hlutann af skuldunum eftir. Allar þessar tilfæringar voru gerðar með tilstyrk Landsbankans, sem þá var orðinn ríkisbanki, og höfðu tvíþættan tilgang: annars vegar að tryggja eignarhald og yfirráð Jóns Ásgeirs yfir fjölmiðlunum en hins vegar koma skuldunum yfir á einhverja aðra, þar með talda skattgreiðendur sem voru orðnir eigendur bankans,“ segir Páll.

Þetta kemur fram í viðtali við Pál Magnússon sem birtist í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Í viðtalinu fer Páll yfir rekstur og dagsskrárgerð RÚV, stöðu fjölmiðla almennt, umræðuna um hlutdrægni fréttastofu og þáttastjórnenda RÚV og margt fleira.