Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, hefur skipað Pál Magnússon í embætti útvarpsstjóra Ríkisútvarpsins til fimm ára, frá 1. september næstkomandi, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Menntamálaráðuneytinu bárust alls 23 umsóknir um embættið, segir í tilkynningunni

Páll Magnússon lauk stúdentsprófi frá Kennaraháskóla Íslands 1975 og Fil.kand-prófi í stjórnmálasögu og hagsögu frá Háskólanum í Lundi, Svíþjóð, 1979. Hann stundaði kennslustörf við Þinghólsskóla í Kópavogi og Fjölbrautaskólann í Breiðholti 1979-1981, var blaðamaður á Vísi 1980-1981 og fréttastjóri á Tímanum 1981-1982.

Páll var aðstoðarritstjóri við Iceland Review/Storð 1982, fréttamaður/þingfréttamaður hjá Ríkisútvarpinu-Sjónvarpi 1982-1985 og aðstoðarfréttastjóri/starfandi fréttastjóri hjá Ríkisútvarpinu-Sjónvarpi 1985-1986.

Frá 1986-1990 var Páll fréttastjóri Stöðvar 2, framkvæmdastjóri dagskrár- og framleiðslusviðs Stöðvar 2 1990-1991 og forstjóri Íslenska útvarpsfélagsins 1991-1994. Hann var ritstjóri Morgunpóstsins 1994-1995, sjónvarpsstjóri Sýnar 1995-1996, fréttastjóri Stöðvar 2 og Bylgjunnar 1996-2000, framkvæmdastjóri samskipta- og upplýsingasviðs Íslenskrar erfðagreiningar 2000-2004, framkvæmdastjóri dagskrársviðs Íslenska útvarpsfélagsins 2004-2005 og nú síðast sjónvarps- og fréttastjóri Stöðvar 2.