Ríkisútvarpið (RÚV) mun að öllum líkindum hefja samkeppni við aðra fjölmiðla um auglýsingar á vefmiðlum. Í drögum að nýju frumvarpi að lögum um starfsemi RÚV er núverandi hömlum félagsins á sölu á auglýsingum á vefnum aflétt.

Aftur á móti verður dregið úr umsvifum RÚV á auglýsingamarkaði í sjónvarpi. Í drögunum er RÚV gert að lækka auglýsingahlutfall sitt í sjónvarpi úr 12 mínútum per klukkustund niður í 10 mínútur. Þá verður RÚV einnig óheimilt að selja auglýsingar inn í dagskrárliði, þ.e. að rjúfa dagskrá fyrir auglýsingar. Seinni liðurinn er þó óljós þar sem gert er ráð fyrir því að í lengri dagskrárliðum geti RÚV selt auglýsingar, s.s. í hálfleikum íþróttaviðburða þótt það sé ekki útfært nákvæmlega í drögunum.

Í samtali við Viðskiptablaðið minnir Páll Magnússon útvarpsstjóri á að þetta séu drög að frumvarpi en sé ekki enn orðið frumvarp menntamálaráðherra. Páll segir að lækkun auglýsingahlutfallsins feli í sér tekjutap upp á um 200 milljónir króna á ári. Þá segir hann óvíst hversu mikið tekjutap verður af því að selja ekki auglýsingar inn í lengri dagskrárliði.

„Á Íslandi ríkir tvíokun á sjónvarpsmarkaði, þannig að það er ljóst að tekjuskerðing RÚV felur ekkert annað í sér en tilfærslu á fjármagni til 365 miðla,“ segir Páll.

„Þetta er mat þeirra aðila sem hafa greint þennan markað. Fyrrnefnd skerðing á auglýsingatekjum RÚV mun lítið gagnast minni aðilum, þar sem leiða má líkur að því að hún muni öll færast til 365. Það kann að þýða tekjuaukningu fyrir þá fjölmiðlasamsteypu upp á hundruð milljóna króna á ári, sem mun væntanlega styrkja samkeppnisstöðu þeirra gagnvart minni aðilum, hvort sem er ljósvaka- eða prentmiðlum.“

Aðspurður hvort Páll telji réttlætanlegt fyrir RÚV að hefja sölu á auglýsingum á vef félagsins, þar sem nú þegar ríki mun meiri samkeppni á þeim markaði en sjónvarpsmarkaði, segir Páll að RÚV muni starfa eftir þeim lögum sem félaginu eru sett hverju sinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.