Páll Matthíasson, sem er tímabundið ráðinn forstjóri Landspítalans, ætlar að sækja um stöðuna til framtíðar. Páll var ráðinn forstjóri til hálfs árs eftir að Björn Zoega, forveri hans, sagði upp störfum. Ráðningin rennur út í lok mars.

Í samtali við Morgunútvarpið á RÚV sagði Páll að fjölmargir hafi hvatt sig til að sækja um. „Ég ætla að gera það,“ sagði hann. Starf forstjóra Landspítalans var auglýst þann 31. janúar, en staðan verður veitt frá 1. apríl næstkomandi til fimm ára.