Þann 1. febrúar síðastliðinn áttu sér stað breytingar á Skatta- og lögfræðisviði Deloitte. Páll Jóhannesson tók þá við stöðu sviðsstjóra Skatta- og lögfræðisviðs af Völu Valtýsdóttur, sem hefur sinnt stöðu sviðsstjóra undanfarin 10 ár. Páll mun jafnframt verða einn af meðeigendum Deloitte.

Páll Jóhannesson hefur undanfarin 7 ár starfað hjá Nordik lögfræðiþjónustu en hann var einn af stofnendum lögmannsstofunnar. Hann hefur einnig sinnt stundakennslu við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Á árunum 2002-2007 starfaði Páll hjá Deloitte, þar af sem forstöðumaður Skatta- og lögfræðisviðs frá árinu 2006.

Breytingar á rekstrarsviði

Þá voru einnig breytingar á Rekstrarsviði félagsins, en Margrét Sanders sem var framkvæmdastjóri rekstrar sagði starfi sínu lausu í október og hættir í mars.

Þá munu Sunna Einarsdóttir, Harpa Þorláksdóttir, Haraldur I. Birgisson og Heimir Snorrason taka við störfum fjármálastjóra, mannauðsstjóra, forstöðumanns viðskipta- og markaðstengsla og yfirmanns tölvumála, í sömu röð.

Sunna er með cand.oecon gráðu frá Aarhus University og hóf störf hjá Deloitte á Íslandi árið 2014. Fram að því starfaði hún sem ráðgjafi hjá Business Process Solutions deild Deloitte í Danmörku.

Harpa hóf störf hjá Deloitte árið 2009 sem forstöðumaður Viðskipta- og markaðstengsla. Áður en hún réðst til starfa hjá Deloitte starfaði hún sem forstöðumaður Samskiptasviðs hjá Atorku, sölu- og markaðsstjóri Þyrpingar og forstöðumaður Markaðsdeildar hjá Eimskip.

Haraldur hóf störf hjá Deloitte snemma árs 2014 en starfaði áður hjá Viðskiptaráði Íslands í um 7 ár, þar af sem aðstoðarframkvæmdastjóri frá árinu 2010. Haraldur er lögfræðingur frá Háskólanum í Reykjavík og öðlaðist hann lögmannsréttindi árið 2011.

Heimir hefur starfað hjá Deloitte frá árinu 2003 og í upplýsingatækni-geiranum í yfir tvo áratugi. Hann hefur starfað hjá bæði stórum sem og vaxandi fyrirtækjum. Heimir er rafeindavirki á tölvu og fjarskiptasviði og hefur lokið námi í kerfisfræði.