Páll Ásgrímsson héraðsdómslögmaður hefur verið ráðinn aðallögfræðingur Vodafone.

Páll hefur mikla reynslu á sviði félagaréttar, auk þess að hafa sérhæft sig á sviði fjarskipta- upplýsingatækni- og samkeppnisréttar. Hann hefur frá árinu 2011 verið einn af eigendum lögfræðistofunnar Juris, en áður starfaði hann um langt árabil sem forstöðumaður og síðar framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Símans og síðar Skipta.

Páll var lögfræðingur EFTA skrifstofunnar og Eftirlitsstofnunar EFTA á árunum 1995 til 1999 og yfirlögfræðingur Samkeppnisstofnunar frá 1994 til 1995. Hann hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja, t.d. Símans hf., Mílu ehf., FARICE hf. og Skjásins ehf.

Páll mun heyra beint undir forstjóra Vodafone og hafa yfirumsjón með öllum lögfræðilegum málefnum félagsins. Hann mun hefja störf hjá fyrirtækinu á næstu vikum.

„Það er mikill fengur í Páli Ásgrímssyni fyrir Vodafone. Hann býr yfir mikilli þekkingu og reynslu sem mun nýtast okkur vel í rekstri og uppbyggingu fyrirtækisins á næstu árum,“ segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone.