Bæjarráð Kópavogs hefur samþykkt að ráða Pál Magnússon í stöðu bæjarrita Kópavogsbæjar frá og með 1. júlí nk. Páll hefur verið aðstoðarmaður iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá árinu 1999 og er með meistaragráðu í opinberri stjórnsýslu frá Háskóla Íslands.

Páll var varabæjarfulltrúi í Bæjarstjórn Kópavogs árin 1990 til 1998 og varaþingmaður frá árinu 1999.

Bæjarritari er framkvæmdastjóri fjármála- og stjórnsýslusviðs. Hann samræmir og hefur með höndum stjórn á starfsemi er undir það svið heyrir svo sem fjármál, starfsmannamál, markaðs- og kynningarmál, tölvumál, skjalavörslu auk annarra starfsþátta bæjarskrifstofu. Bæjarritari er ritari bæjarráðs og bæjarstjórnar ásamt því að vera staðgengill bæjarstjóra í fjarveru hins síðarnefnda.

Páll Magnússon er 35 ára gamall, kvæntur Aðalheiði Sigursveinsdóttur viðskiptafræðingi.