Páll Á. Jónsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fjarskiptanets Símans. Í tilkynningu Símans kemur fram að Páll hefur mikla og fjölbreytta reynslu af starfsemi á fjarskiptasviði. Fjarskiptanet Símans sér um uppbyggingu og rekstur á grunnkerfi fyrirtækisins sem skiptist tæknilega upp í aðgangsnet og sambönd. Þá sér fjarskiptanet um heildsölu til annarra fjarskiptafyrirtækja.

Páll hóf fyrst störf hjá Póst- og símamálastofnun árið 1969 sem símvirkjanemi. Hann hefur síðan unnið hjá Símanum eða fyrirrennara hans frá árinu 1978 með hléum. Helstu verkefni Páls hjá Símanum voru við uppbyggingu ljósleiðarakerfis Símans. Auk þess hefur hann unnið við Cantat 3 og Farice-sæstrengjaverkefnin. Páll var forstöðumaður Heildsölu Símans fram til 2004 en á síðastliðnu ári tók hann við starfi forstöðumanns Aðgangsnets Símans. Auk þess starfaði Páll hjá Ríkisútvarpinu Sjónvarpi og hjá IBM á Íslandi.

Páll nam rafmagnstæknifræði við Tækniskóla Íslands og Tækniskólann í Óðinsvéum og lauk prófi frá þeim skóla 1978. Páll stundaði nám í viðskipta- og rekstrarfræðum við Endurmenntun Háskóla Íslands 1994 og 1995.