Mjög algengt er að íslensk fyrirtæki geri ekki raunhæfar kostnaðaráætlanir sem byggja á aðgerðaáætlun sem bregðast eigi við breyttum aðstæðum.

Ef fyrirtæki lenda í erfiðleikum, t.d. með að verða sér út um birgðir er sjaldan til áætlun til að bregðast við því.

Þetta sagði Páll Ríkharðsson, dósent við Háskólann í Reykjavík og viðskiptaráðgjafi hjá SAS Institute á fyrirlestri í HR um stjórnunarreikningsskil fyrir stundu en fundurinn stendur nú yfir.

Páll kynnti niðurstöður rannsókna um stjórnunarreikningsskil 300 stærstu fyrirtækja á Íslandi fyrir fullum sal áhorfenda.

Þá leiddi rannsóknin einnig fram að innra eftirliti fyrirtækja er mjög ábótavant. Oft vantar skilvirkar starfsmannastefnur auk þess sem stjórnendur virðast ekki leggja mikið upp úr lykiltölum, svo sem sölu frá degi til dags, rýrnun, birgðastöðu, launakostnaði og svo framvegis. Oft væri verið að reka fyrirtæki frá degi til dags undir þeim formerkjum að „þetta reddast“ sem Íslendingar kannast flestir við.

Í fyrirlestri sínum hafði Páll orð á því að erlendir kollegar hans hefðu kallað þetta „The viking way of management“ eða víkingaaðferðin.

Þannig virðist upplýsingaflæði til stjórnenda ábótavant og þeir oftar en ekki móta þeir stefnu fyrirtækja á upplýsingum „gærdagsins“ en ekki raunhæfum lykiltölum sem ættu að liggja fyrir frá degi til dag með nútíma forritum þar sem mögulegt er að halda utan um fyrrgreinda þætti.

Páll sagði að í raun mætti lýsa þessu þannig að íslenskir stjórnendur keyrðu niður fjallavegi með því að nota einungis bensíngjöfina og stýrið en horfa á sama tíma í baksýnisspegilinn. Í góðu árferði síðustu ára hefur farið miður að gera áætlanir þar sem reiknað er með áföllum eða skyndilega breyttum aðstæðum.

Páll sagði að niðurstöður rannsóknarinnar hefðu komið sér á óvart, hann hefði búist við frekari skilvirkni meðal stjórnenda fyrirtækja.