Þingmenn hafa ekki áhuga á varnaðarorðum eftirlitsaðila, að mati Páls Gunnars Pálssonar, forstjóra Samkeppniseftirlitsins. Hann var gestur á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun þar sem farið var yfir gagnrýni rannsóknarnefndar Alþingis í skýrslu um Íbúðalánasjóð um Fjármálaeftirlitið. Páll Gunnar var á þeim tíma forstjóri eftirlitsins. Hann sagði lítið hafa breyst. Til marks um þetta skráðu þrír þingmenn sig á stóra alþjóðlega ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins á dögunum. En einn mætti og sat alla ráðstefnuna. Á meðal gesta á ráðstefnunni var Angel Gurría, framkvæmdastjóri Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD).

Páll Gunnar kom jafnframt inn á gagnrýni á eftirlitsaðila, s.s. Samkeppnseftirlitið og FME.

„Stjórnvöld telja sér borgið að setja á stofn eftirlitsbatterí og þurfa svo ekki að hugsa um það meira. En þetta virkar ekki þannig. Löggjafinn þarf að vera vakandi. Verið er að tala niður eftirlitsiðnaðinn, að hann sé að sliga atvinnulífið. En það er ekkert talað um það á hvað eftirlitið er að benda,“ sagði hann.

Lesið skýrsluna!

Á ráðstefnu Samkeppniseftirlitsins var kynnt rannsókn á stöðu 120 mikilvægra fyrirtækja á Íslandi. Gunnar sagði þetta mikilvæga skýrslu sem fáir virðist hafa kynnt sér.

„Við færum fyrir því sterkt rök að við stöndum frammi fyrir týndum áratug sem mun hafa afgerandi áhrif á lífskjör. Eftir tíu ár þá ætla ég að vísa í þennan fund. Það verða fleiri með mér sem bera ábyrgð,“ sagði Páll Gunnar og brýndi fyrir mönnum að lesa skýrslu Samkeppniseftirlitsins.