Páll Magnússon, fyrrverandi útvarpsstjóri, mun gefa kost á sér í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi og stefnir hann á 1. sæti listans. Þetta staðfestir hann í samtali við Viðskiptablaðið. Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra er nú fyrsti þingmaður flokksins í kjördæminu. Framboðsfrestur rennur út á miðnætti í kvöld.

„Ég ákvað að gera þetta eftir nokkra umhugsun. Ég býð mig fram í 1. sæti, en ég er tilbúinn að taka eitthvað annað sæti á listanum ef Sjálfstæðismenn í kjördæminu vilja það frekar.“ Spurður að því hvort hann hafi velt því fyrir sér að gefa heldur kost á sér í eitthvað annað sæti en það fyrsta segir Páll: „Ég ákvað að fyrst ég væri að þessu á annað borð myndi ég gera þetta svona.“