Forsætisráðherra hefur skipað Pál Þórhallsson, skrifstofustjóra í forsætisráðuneyti, nýjan formann stjórnarskrárnefndar. Páll tekur við formennsku af Sigurði Líndal sem nýlega fékk lausn frá störfum að eigin ósk. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Forsætisráðuneytinu.

Í tilkynningunni segir að Páll Þórhallsson hefur starfað í forsætisráðuneytinu frá árinu 2005 og þar áður hjá mannréttindadeild Evrópuráðsins. Samhliða störfum sínum í forsætisráðuneytinu hefur hann sinnt kennslu við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Páll lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands 1995 og framhaldsnámi í stjórnskipunarrétti frá háskólanum í Strassborg 1998. Hann átti sæti í sérfræðingahópi Alþingis sem  árið 2012 var falið að undirbúa frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga á grundvelli tillagna stjórnlagaráðs og einnig í undirbúningsnefnd stjórnlagaþings og síðar stjórnlagaráðs 2010-2011. Loks var Páll starfsmaður stjórnarskrárnefndar þeirrar sem starfaði á árunum 2005-2007 undir forystu Jóns Kristjánssonar.

Skipan Páls kemur á þeim skilum í starfi nefndarinnar að gefin hefur verið út fyrsta áfangaskýrsla og athugasemdafresti vegna hennar lýkur 1. október. Fram undan er nánari úrvinnsla og undirbúningur næstu áfangaskýrslu. Stefnt skal að því að vinnu nefndarinnar ljúki tímanlega svo hægt sé að samþykkja frumvarp til breytinga á stjórnarskránni á yfirstandandi kjörtímabili en unnt er að áfangaskipta vinnunni eftir því sem henta þykir.