Tæknifyrirtækið Sony hefur valið Pál Stefánsson ljósmyndara til þess að verða sendaherra fyrir Sony myndavélabúnað (Sony Imaging Ambassador). Samstarfið felur í sér að Páll mun nota búnað frá Sony við myndatökur og hann kemur til með að halda fyrirlestra á kynningum og ráðstefnum á vegum fyrirtækisins víðsvegar um heiminn, að því er fram kemur í tilkynningu frá Nýherja.

Þá segir að Páll muni taka þátt í Sony World Photography Award, sem er ein virtasta ljósmyndakeppni á sínu sviði, en þar er keppt í flokkum sem spanna allt frá áhugamönnum til virtustu atvinnumanna veraldar.

Páll Stefánsson er einn af virtustu ljósmyndurum Íslands, auk þess að starfa fyrir tímaritið Iceland Review, hafa komið út eftir hann yfir 30 ljósmyndabækur, og sú nýjasta, um Færeyjar kemur einmitt út nú í júní.  Hann hefur myndað fyrir mörg af þekktustu tímarit heims og fengið fjölda viðurkenninga fyrir verk sín, nú síðast fyrir að hafa tekið mynd ársins á Íslandi hjá félagi blaðaljósmyndara.