Pálmar Óli Magnússon hefur verið ráðinn forstjóri Daga, sem áður hét ISS Ísland. Í fréttatilkynningu er fyrirtækið sagt leiðandi í fasteignaumsjón, ræstingum og veitingaþjónustu fyrir fyrirtæki og stofnanir. Pálmar Óli, tekur við stöðunni þann 1. mars næstkomandi.

Pálmar Óli var áður forstjóri Samskipa, en þar áður framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Landsvirkjunar. Hann er með MBA gráðu frá HÍ, CS gráðu í vélaverkfræði frá sama skóla og Dipl.Ing. í vélaverkfræði frá háskólanum í Karlsruhe í Þýskalandi. Hann er kvæntur Hildi Karlsdóttur kennara og eiga þau þrjú börn

Saga Daga nær aftur til ársins 1980 þegar Ræstingarmiðstöðin sf. var stofnuð, en hún varð síðar að ræstingardeild Securitas. Aldamótaárið 2000 keypti alþjóðlega fyrirtækið ISS A/S ræstingardeild Securitas og árið 2017 keyptu svo stjórnendur fyrirtækisins, ásamt hópi innlendra og erlendra fjárfesta, allt hlutafé fyrirtækisins.

„Dagar eru gríðarlega spennandi fyrirtæki með mikla vaxtamöguleika, enda er óvíða að finna jafn umfangsmikla þekkingu á þörfum fyrirtækja og stofnana hvað varðar fasteignaumsjón, ræstingar, þrif og veitingaþjónustu í hæsta gæðaflokki. Náið og gott samstarf við viðskiptavini Daga hefur verið aðalsmerki fyrirtækisins og verður að sjálfsögðu áfram,“ segir Pálmar Óli Magnússon, verðandi forstjóri Daga.

Pálmar Óli tekur við stöðunni af Guðmundi Guðmundssyni, sem lætur af störfum eftir áratugalangt og árangursríkt starf.

„Guðmundur hefur leitt Daga af einurð í um tuttugu ár og gert það að leiðandi fyrirtæki á sínu sviði með útsjónarsemi sinni og þekkingu. Hans framlag og forysta við uppbygginu félagsins hefur verið lykilþáttur í frábærum árangri og ánægju meðal viðskiptavina og starfsmanna. Stjórn Daga færir honum einlægar þakkir fyrir störf sín,“ segir Patrick De Muynck, stjórnarformaður Daga, en Guðmundur mun áfram vera í hluthafahópi Daga og stjórninni til ráðgjafar.

Að sögn Pálmars Óla eru Dagar með starfsemi á yfir 20 stöðum á landinu og þar starfi nú um 800 starfsmenn sem ræsti ríflega 720.000 fermetra hjá um 600 viðskiptavinum, sjái um húsumsjón og rekstur fasteigna og framreiði ríflega 50.000 máltíðir fyrir fyrirtæki og stofnanir.

„Mannauðurinn er mikill og ég hlakka mikið til að takast á við spennandi verkefni á hverjum degi hjá Dögum,“ segir Pálmar Óli.