Samskip hafa tekið upp nýtt skipurit fyrir starfsemi félagsins á Íslandi. Pálmar Óli Magnússon sem verið hefur framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri millilandasviðs. Hann er jafnframt staðgengill forstjóra. Björgvin Jón Bjarnason hefur um leið verið ráðinn er nýr framkvæmdastjóri hjá innanlandssviði Samskipa (Landflutningar-Samskip), Kristján Pálsson er áfram framkvæmdastjóri Jónar Transport og Sæmundur Guðlaugsson er framkvæmdastjóri fjármálasviðs.

Ragnar Þór Ragnarsson er nýr framkvæmdastjóri upplýsingasviðs Samskipa. Það er nýtt svið og endurspeglar þá auknu áherslu sem lögð er á upplýsingatækni og þjónustu í starfsemi félagsins.

Ragnar og Björgvin Jón hafa jafnframt tekið sæti í framkvæmdastjórn Samskipa sem skipuð er forstjóra og framkvæmdastjórum þjónustudeildanna fimm.

Björgvin Jón Bjarnason er fæddur árið 1966, kvæntur Guðlaugu Sigurðardóttur og eiga þau þrjú börn. Hann útskrifaðist sem iðnrekstrarfræðingur frá Tækniskóla Íslands árið 1989 og með BS gráðu í iðnaðartæknifræði frá sama skóla 1992. Áður en Björgvin kom til starfa hjá Samskipum var hann framkvæmdastjóri hjá Síld og fisk ehf. og Rekstrarfélaginu Braut ehf. frá febrúar 2004. Þar áður starfaði hann sem stjórnunarráðgjafi hjá IBM Business Consulting Service.

Ragnar Þór Ragnarsson er fæddur árið 1971, kvæntur Hólmfríði Einarsdóttur og eiga þau tvö börn. Hann útskrifaðist með BS í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands 1993 og MBA gráðu í ?Shipping and Logistics? frá Copenhagen Business School árið 2005. Ragnar hóf störf hjá Samskipum árið 1993 sem tölvunarfræðingur og var deildarstjóri tölvudeildar frá 1996 til 2000 þegar hann varð framkvæmdastjóri hjá Þróun hf. Árin 2002-2003 starfaði Ragnar hjá ráðgjafafyrirtækinu Nobex. Hann réðst til starfa hjá Samskipum á ný í janúar 2004 sem forstöðumaður upplýsingatæknideildar.

Í nýju skipuriti er starfseminni skipt upp í tvö afkomusvið, auk Jonar Transport, sem rekið verður áfram í óbreyttri mynd. Eru afkomusviðin Millilandasvið og Innanlandssvið. Millilandasvið sér um flutninga til og frá Íslandi, en Innanlandssvið sér um Landflutninga-Samskip og Vörumiðstöð. Stoðsviðin er tvö, Fjármálasvið og Upplýsingasvið.