Tom G. Palmer, sérfræðingur hjá Cato stofnuninni í Bandaríkjunum og yfirmaður alþjóðadeildar Atlas Economic Research Foundation, er harðorður í garð hagfræðingsins og álitsgjafans Paul Krugman.

Í viðtali við Viðskiptablaðið gagnrýnir Palmer hann m.a. fyrir að mæla fyrir því að verðbólga sé notuð til að leysa skuldavanda banka, stórfyrirtækja og ríkisstjórna. „Paul Krugman er gerspilltur maður. Hann var einu sinni góður hagfræðingur og ég mæli ennþá með bókum og ritgerðum sem hann skrifaði á þeim tíma. Hann hefur hins vegar selt þessar hugsjónir fyrir áhrif og völd. Hann ræðst mjög harkalega á nafngreinda einstaklinga, hefur þá fyrir rangri sök og hefur aldrei beðist afsökunar á slíkum skrifum.“

Palmer segir tengsl Krugmans við Enron fyrirtækið skýrt dæmi um spilling hans. „Hann fékk 100.000 dali greidda frá Enron fyrirtækinu og mærði það svo í pistlum sínum í New York Times. Vörn hans hefur verið sú að hann sé svo efnaður að 100.000 dalir séu klink í hans huga og geti því ekki haft áhrif á skrif hans. Þetta er svo maður sem segir að það sem heimurinn þarf á að halda til að takast á við efnahagsvandann er innrás úr geimnum. Það er ekki lengur hægt að taka Krugman alvarlega þegar kemur að hagfræði."

Hægt er að lesa viðtalið við Tom Palmer í heild sinni í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.