Sænska félagið ZetaDisplay hefur eignast 10,15% hlut í tæknifyrirtækinu MulitQ, sem skráð er í kauphöllina í Stokkhólmi. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er félag í eigu Pálma Haraldssonar stærsti hluthafinn í ZetaDisplay, sem sérhæfir sig í rafrænum auglýsingaskiltum, með rúmlega 20% hlut.

Tap var af rekstri MultiQ á þriðja ársfjórðungi, miðað við hagnað á sama tímabili í fyrra. Tapið nam 1,78 milljónum sænskra króna (14,1 milljón íslenskra króna), samanborið við 630 þúsund sænskra króna hagnað. MultiQ sérhæfir sig í framleiðslu á flatskjám.

Pálmi Haraldsson hefur verið iðinn við að fjárfesta á Norðurlöndunum og er stærsti hluthafinn í sænska lággjaldaflugfélaginu FlyMe. Félag í eigu hans og viðskiptafélaga hans, Jóhannesar Kristinssonar, seldi nýverið norræna lággjaldaflugfélagið Sterling til FL Group fyrir 15 milljarða.