Pálmi Gunnarsson viðrað hugmyndir um gæðastimplun veiðisvæða hér á landi í Viðskiptablaðinu í gær. Telur hann ekki vanþörf á þar sem umgengni um veiðiár landsins með botnlausum seiðasleppingum megi í sumum tilvikum líkja við náttúruhryðjuverk. „Skelfingin í þessu er að stöðugt er verið að hampa magntölum, en það hefur ekkert með gæði lífríkisins að gera. Það er hrein og klár græðgi sem þvælir þessu áfram."

Pálmi segist hafa verið að ræða þessa hugmynd við nokkra félaga sína.

„Ég álít ástandið vera mjög alvarlegt og er búinn að tala fyrir því í langan tíma hversu alvarlegt inngrip það er að sem við höfum stundað í tugi ára. Auk þess sem margir mætir og heimsfrægir vísindamenn hafa bent á hættuna af þessu inngripi í fiskistofna ánna þar sem verið er að ala seiði upp í kerum til sleppingar. Það veikir genastofninn í ánum í stað þess að náttúran fái að velja hörðustu og hæfustu einstaklingana."

Hugmyndin um gæðastimplun byggir á að komið verði upp litakerfi þar sem ár og önnur veiðivötn fái litamerkingu samkvæmt nánari skilgreiningu. Þar þýddi grænn litur t.d. að áin sé sjálfbær, þ.e. að aldrei hafi verið sleppt í hana seiðum. Gulur litur gæti þá þýtt að stunduð hafi verið fiskrækt í ánni, en því hafi verið hætt og stefnt sé að sjálfbærni. Blár litur yrði þá vísbending um að í ánni séu stundaðar seiðasleppingar. Rauður litur myndi samkvæmt skilgreiningunni þýða að í ánni sé hafbeit.

Pálmi segir að líklega myndi aðeins ein laxveiðiá standa undir því nafni í dag að kallast sjálfbær, en það er Haffjarðará á Snæfellsnesi þar sem aldrei hefur verið sleppt seiðum. „Núna ber hún af og það stirnir á hana eins og perlu."