Annasamur dagur verður hjá Ragnari H. Hall, lögmanni athafnamannsins Pálma Haraldssonar, á morgun. Fyrirtaka í sex riftunarmálum þrotabús Fons gegn Pálma, tengdum félögum og viðskiptafélögum hans er á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur fyrir hádegið.

Nöfnin sem koma við sögu í málunum sex eru Jón Ásgeir Jóhannesson, Jóhannes Kristinsson, sem er fyrrverandi meðeigandi Pálma að Fons, Eignarhaldsfélagið Fengur og Matthews Holding.

Eins og dagskrá héraðsdóms lítur út verður fyrsta málið tekið fyrir klukkan 10:00 og lýkur fyrirtöku í því síðasta klukkan 10:35.

Fyrsta málið á dagskrá er fyrirtaka í riftunarmáli þrotabúsins gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni. Búist er við að fyrirtakan taki lengstan tíma, 10 mínútur. Fimm mínútur eru settar á fyrirtöku í hinum málunum fimm.

Ragnar þarf ekki að fara langt á stuttum tíma en öll málin verða tekin fyrir í sal 202.