Í stefnu Pálma Haraldssonar á hendur Svavari Halldórssyni, fréttamanni á Ríkisútvarpinu, gerir hann athugasemdir við að Svavar segi hann hafa fengið 2,5 milljarða að láni. Hið rétta væri að Fons hafi fengið peningana að láni og því eigi þessi orð sér „enga stoð í raunveruleikanum".

Svavar áréttaði í frétt um málið daginn eftir að það hefði verið Fons sem fékk lánið. Samkvæmt Svavari var nafn Pálma notað í þessu samhengi til að einfalda fréttina og gera hana skiljanlegri. Í stefnunni segir að Pálmi „þarf ekki að sæta því að vera samsamaður fyrirtæki, sem hann átti hlutafé í og var í forsvari fyrir".

Í viðtölum hefur Pálmi oft samsamað sig við félagið Fons þar sem hann hélt um alla þræði áður en það fór í þrot. 21. febrúar 2008 segir Pálmi frá því að Fons hafi sölutryggt Skeljung og hann líti svo á að félagið sé selt. „Ég veit nákvæmlega hvað ég fæ út úr sölunni," segir Pálmi og á þá við Fons.

Í nýlegu viðtali við DV segir Pálmi þegar hann útskýrir sölu á Sterling frá Fons til FL Group: „Ég fékk gott tilboð í Sterling frá FL Group og seldi það á háu verði og innleysti mikinn hagnað." Þarna á Pálmi við að félagið Fons hafi fengið gott tilboð.

Mörg önnur dæmi eru til þar sem Pálmi notar persónufornafnið „ég“ þegar hann er að tala um Fons. Samkvæmt stefnunni á Pálmi samt ekki að þurfa „sæta því að vera samsamaður fyrirtæki, sem hann átti hlutafé í og var í forsvari fyrir".