Nokkur mál tengd Pálma Haraldssyni, löngum kenndur við eignarhaldsfélagið Fons, eru á dagskrá í Héraðsdómi Reykjavíkur 12. janúar næstkomandi. Í raun er um að ræða þrotabú Fons en skiptastjóri þess vill rifta ýmsum viðskiptum félagsins áður en félagið var lýst gjaldþrota í apríl 2009.

Pálmi Haraldsson
Pálmi Haraldsson
© Edwin Roald Rögnvaldsson (VB Mynd/Edwin)

Fons var atkvæðamikið í íslensku viðskiptalífi fyrir hrun. Það átti Iceland Express og nokkurn fjölda annarra flugfélaga og fyrirtækja í ferðaskrifstofu og flugrekstri á hinum Norðurlöndunum. Þá átti félagið stóra hlut í FL Group og tók þátt í umfangsmikilli uppskiptingu á því í lok árs 2007 og byrjun árs 2008.

Á dagskrá dómsins er fyrirtaka í tveimur riftunarmálum þrotabús Fons gegn Pálma og tvö riftunarmál gegn Eignarhaldsfélaginu Fengi, sem skráður er eigandi Iceland Express. Þá er fyrirtaka í máli þrotabúsins gegn eignarhaldsfélaginu Matthews Holding, eignarhaldsfélagi þeirra Pálma og Jóhannesar Kristinssonar sem skráð er í Lúxemborg. Jóhannes átti lengst af hlut í Fons með Pálma.

Að síðustu er fyrirtaka í máli þrotabúsins gegn viðskiptum sem snúa að viðskiptafélaga Pálma um árabil, Jóni Ásgeiri Jóhannessyni.

Málin eru af ýmsum toga: deilt er um arðgreiðslur, lánveitingar tengdra aðila og sölu eigna úr einu eignarhaldsfélagi í annað.

Mál tengd Pálma eru fjarri því einu málin tengd útrásarvíkingunum í Héraðsdómi Reykjavíkur. Um svipað leyti verða nefnilega tekin fyrir mál á ýmsum stigum tengd þeim Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og Karli Wernerssyni.