Iceland Express hefur tapað miklu fé síðustu misserin og bendir fátt til annars en að í núverandi samkeppnisumhverfi félagsins verði áfram tap af rekstrinum nema róttækar breytingar komi til, að sögn Pálma Haraldssonar, sem hefur selt Iceland Express til Wow air. Pálmi segir óhjákvæmilegt að segja upp starfsfólki. Hins vegar gerir hann ráð fyrir að hluti þess, þar á meðal margir af lykilstarfsmönnum, muni fylgja yfir til Wow air. Ekkert hefur verið gefið upp um kaupverð.

Pálmi hefur sent tilkynningu til fjölmiðla þar sem hann fer yfir hlut sinn. Hann segir m.a. að hann hafi síðastliðin átta ár helgað sig Iceland Express. Það hafi tekið sinn toll og hafi hann því ákveðið að bjóða WOW air að yfirtaka ákveðna þætti úr rekstri Iceland Express.

Í tilkynningu Pálma segir orðrétt:

„Síðastliðin átta ár hef ég helgað Iceland Express starfskrafta mína með það markmið að leiðarljósi að lækka flugfargjöld til og frá landinu. Það ætlunarverk hefur tekist og um forystuhlutverk Iceland Express í þeim efnum allt frá stofnun félagsins er ekki deilt.

Á síðustu árum hefur erlendum lággjaldaflugfélögum sem sinna flugi til og frá landinu fjölgað til mikilla muna og nýtt íslenskt félag blandar sér einnig í þá miklu samkeppni sem hér er orðin. Ég er sannfærður um að sú samkeppni er komin til að vera um langa framtíð og er það fagnaðarefni fyrir íslenska ferðalanga og íslenska ferðaþjónustu.

Ég er ekki í vafa um að leiðandi hlutverk Iceland Express í samkeppni undanfarinna ára hefur skipt miklu máli. Því miður hefur það líka tekið sinn toll. Félagið hefur tapað miklu fé síðustu misserin sem bætt hefur verið upp með nýju fjármagni frá eiganda þess. Fátt bendir til annars en að í núverandi samkeppnisumhverfi félagsins verði áframhaldandi tap af rekstri nema róttækar breytingar komi til.

Af þeirri ástæðu ákvað ég að bjóða íslenska félaginu WOW air að yfirtaka ákveðna þætti úr rekstri Iceland Express. Samkomulag hefur nú tekist um að WOW air kaupi leiðakerfi, vörumerki og viðskiptavild félagsins og jafnframt aðgang að þeirri miklu þekkingu sem safnast hefur upp í rekstri þess. Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins. Grundvallaratriði samningsins er að staðið verður við allar skuldbindingar við farþega Iceland Express. Engar breytingar verða á þeim ferðum sem þeir eru nú í eða hafa bókað á næstunni. Óhjákvæmilegt er að segja starfsfólki upp störfum en gert er ráð fyrir að hluti þess, og þar á meðal margir af lykilstarfsmönnum félagsins, muni fylgja verkefnum Iceland Express yfir til WOW air. Félagið mun á næstunni leita samninga við birgja sína og samstarfsaðila um uppgjör krafna og ljúka í kjölfarið starfsemi sinni.

Á þessum tímamótum vil ég þakka íslenskum farþegum okkar fyrir umfangsmikil viðskipti í gegnum tíðina og tryggð þeirra við félagið. Ekki fór framhjá neinum að Iceland Express glímdi við mikla erfiðleika í áætlunarflugi sínu fyrir rúmu ári síðan. Róttæk uppstokkun í yfirstjórn félagsins og samningar við nýja samstarfsaðila komu daglegri starfsemi á réttan kjöl enda þótt reksturinn héldi áfram að vera þungur. Alls hefur Iceland Express flutt um þrjár milljónir farþega til og frá landinu, skapað mikinn fjölda starfa í íslenskri ferðaþjónustu og gjaldeyristekjur sem nema tugum milljarða króna. Af þeim árangri er ég bæði stoltur og þakklátur.

Að baki þessum miklu umsvifum er stór hópur starfsfólks sem staðið hefur með mér og félaginu í gegnum þykkt og þunnt. Ég er afar þakklátur því góða fólki og kveð bæði það og rekstur Iceland Express með söknuði. Ég stíg hins vegar sáttur frá borði í þeirri fullvissu að þjónusta við farþega félagsins á næstu dögum sé tryggð, styrkari stoðum hafi verið rennt undir íslenskan rekstur lágfargjaldafélags á komandi árum og síðast en ekki síst sannfærður um að verðlækkandi áhrifa Iceland Express á Íslandi muni gæta um langa framtíð.

Ég óska Wow air velfarnaðar og þakka starfsfólki og viðskiptavinum Iceland Express fyrir samfylgdina á liðnum árum.“