Pálmi Haraldsson flutti lögheimili sitt til Lúxemborgar þann 24. ágúst síðastliðinn. Þetta kemur fram í eiðsvarinni yfirlýsingu Pálma sem send var dómstólum í New York þann 4. nóvember í síðustu viku.

Pálmi segir ennfremur í yfirlýsingunni að hann hafi heimsótt Bretland í skamman tíma á árunum 2009 og 2010 í viðskiptaerindum. Síðast hafi hann verið í Bretlandi þann 6. júlí 2010.

Þá segir Pálmi að hann hafi aldrei starfað eða verið búsettur í New York.

Pálmi er einn þeirra sjö sem slitastjórn Glitnis hefur stefnt fyrir dómstóli í New York fyrir að hafa rænt bankann innan frá.

Flutti lögheimili sitt til Bretlands

Í lok síðasta árs flutti Pálmi lögheimili sitt til Bretlands en hefur nú, samkvæmt yfirlýsingunni, fært það til Lúxemborgar.

„Astraeus á nú hug minn allan og þess vegna hef ég ákveðið að búa hér úti,“ sagði Pálmi þegar Viðskiptablaðið spurði hann í apríl síðastliðnum um flutning á lögheimili sínu til Bretlands. Pálmi sagði að hann kæmi að daglegum rekstri Astreus í Bretlandi og því rökrétt að hann hafi aðsetur þar.

Aðspurður um það í apríl af hverju hann hafi ekki flutt lögheimili sitt fyrr sagði Pálmi að það hafi verið sameiginleg ákvörðun fjölskyldunnar að flytja á þessum tíma. Að öðru leyti hafi ekki legið djúpar aðstæður þar að baki.

Frétt Viðskiptablaðsins frá þvi í apríl er hægt að lesa hér .