„Ég ætla að fókusera á Iceland Express og leiðakerfi Iceland Express. Ég held að það sé best fyrir bæði mig og fyrirtækin,“ segir Pálmi Haraldsson, aðaleigandi Ferðaskrifstofu Íslands og Iceland Express, í samtali við vb.is. Eins og fram kom fyrr í dag hefur verið ákveðið að selja ferðaskrifstofuna. Arctica Finance sér um söluferlið sem verður kynnt í vikunni.

Pálmi bendir á að Iceland Express hafi fyrir skemmstu kynnt nýtt leiðakerfi. Það felur m.a. í sér að flogið verði til Bandaríkjanna á nýjan leik og fleiri staða í Evrópu. Áfangastaðir Iceland Express verða 10 og eykst sætaframboð úr 370 þúsund sætum í 480 þúsund. Aukningin nemur 30%.

Pálmi segir rekstur ferðaskrifstofunnar hafa gengið vel eftir að Iceland Express keypti hann í byrjun árs 2009.

„Ég tók við þessu kolgjaldþrota,“ segir Pálmi sem lagði 750 milljónir króna í rekstur Ferðaskrifstofu Íslands til að koma honum á réttan kjöl á sínum tíma. Hann leggur áherslu á að hann telji söluna hagfellda fyrir bæði fyrirtækin, bæði ferðaskrifstofuna og flugfélagið og ætli hann að einbeita sér að aukinni tíðni hjá flugfélaginu.

„Ég tel þetta best fyrir mig og fyrirtækin bæði að slíta þetta í sundur,“ segir hann.

Pálmi vildi ekki tjá sig um hugsanlegt verð á ferðaskrifstofunni.