„Fréttin er alröng frá upphafi til enda um þau atriði sem hér skipta máli," segir í stefnu Pálma Haraldssonar á hendur Svavari Halldórssyni fréttamanni á Ríkisútvarpinu. Í frétt Svavars frá 25. mars síðastliðinn var greint frá láni sem Fons fékk hjá Glitni uppá 2,5 milljarða króna, sem virtust hafa týnst.

Maríu Sigrúnu og Páli Magnússyni stefnt til vara

Pálmi krefur Svavar um 3 milljónir króna í miskabætur auk dráttarvaxta og 600 þúsund krónur í viðbót til að birta dóminn í tveimur dagblöðum.   Til vara er María Sigrún Hilmarsdóttur, sem var fréttalesari umrætt kvöld, og Páli Magnússyni útvarpsstjóra stefnt verði ekki fallist á það að Svavar hafi flutt alla fréttina og þar með borið ábyrgð á inngangi sem María Sigrún las.

Pálmi er meðal annars ósáttur við fyrirsögn sem birtist á skjánum þegar inngangur fréttarinnar var lesinn. Þar stóð: „Milljarðar hurfu í reyk." Einnig er hann ósáttur við að í fréttinni kom fram að hann hefði tekið lánið en hið rétta sé að Fons hafi verið lántakandinn. Pálmi var aðaleigandi og stjórnandi Fons á þessum tíma. Þá segir í stefnu Pálma að í fréttinni sé hann vændur um refsivert athæfi þegar sagt er að „peningarnir eru týndir" og „þeir peningar finnast hins vegar hvergi" og vísað þar til lánsins.

Aðdróttanir um auðgunarbrot

„[Stefnandi] telur að framsetning fréttarinnar hafi verið með þeim hætti að hún verði ekki skilin öðruvísi en að stefnandi hafi tekið lánið persónulega og það síðan týnst eða „gufað upp", eins og svo smekklega er að orði komist. Með öðrum orðum er dróttað að stefnanda að hann hafi með auðgunarbroti haft fé af Glitni Banka hf. og notað til þess flókna viðskiptafléttu, sem tengdist Baugi Group," segir í stefnunni.

Láninu ráðstafað í þremur færslum

Í stefnunni segir að það sé rangt að lánið hafi verið veitt „rétt fyrir hrun". Hið rétta sé að lánasamningurinn var gerður 7. desember 2007 og lánið greitt út 10. desember 2007. Einnig sé rangt að peningarnir hafi gufað upp. Peningunum hafi verið ráðstafað í þremur millifærslum. Tveir milljarðar fóru í að greiða niður lán Fons við Landsbanka Íslands. Tæpar fjórtán milljónir fóru inn á bankareikning Fons hjá Landsbankanum og afgangur lánsins, sem er þá um 500 milljónir króna, var notaður til að kaupa í sjóði 9 hjá Glitni. Þeir peningar fékk Fons til baka auk vaxta 17. janúar 2008.