Pálmi Haraldsson telur ósannað að hann hafi brotið gegn lagareglum í viðskiptum sínum við Glitni. Þetta kemur fram í greinargerð Pálma vegna stefnu slitastjórnar Glitnis gegn honum og fleirum fyrir dómstóli í New York. „Aðalatriði þessa máls er að það er ósannað að Pálmi hafi brotið gegn lagareglum. Þar af leiðandi er útilokað að hann beri persónulega skaðabótaábyrgð á því að Glitnir hafi ekki fengið að fullu greitt lán bankans til FS38, stuttu fyrir bankahrunið sem hér varð."

Í greinargerðinni segir að Pálmi var þess ekki umkominn að gefa starfsmönnum Glitnis bindandi fyrirmæli um viðskipti við Fons eða dótturfélög þess. Tiltæk gögn um samskipti Pálma við starfsmenn Glitnis í tengslum við umrædd viðskipti séu í alla staði eðlileg og ekki annað að sjá en að Glitnir hafi gengið frjáls til viðskiptanna. Pálmi er sagður ekki hafa haft ástæðu til að ætla annað.

Glitnir gekk frjáls til viðskiptanna

„Í þessu sambandi er rétt að hafa hugfast að ekki er óalgengt að fulltrúar viðskiptamanna banka gangi hart fram í samskiptum við bankamenn, t.d. með því að sannfæra þá um ágæti eigin viðskiptahugmynda og að banki hafi af þeim hagsmuni. Samskipti af því tagi hafa aldrei verið metin þannig að þau geri viðkomandi persónulega ábyrga reynist lántaki ekki greiðslufær, enda bankans að fara yfir það sem fyrir hann er lagt og taka viðskiptaákvörðun út frá því.

Pálmi leggur einnig áherslu á að hann þekkti ekkert til skipurits í Glitni, útlánareglna, flokkunar viðskiptamanna eða innri verkferla. Í stefnu er rakið í löngu máli að Glitnir hafi ekki fylgt eigin reglum í viðskiptunum við Fons. Reynist það rétt verður ábyrgð Pálma ekki reist á því, enda hann grandlaus og ekki hans að fylgja þessum reglum," segir í greinargerðinni.