Pálmi Haraldsson segir að virði Iceland Express hafi verið jafn hátt og það var metið í árslok 2006 vegna þess umhverfis sem var við lýði á þeim tíma. Viðskiptablaðið sagði frá því í dag að flugfélagið hafi verið metið á sex milljarða króna í árslok 2006 en hafi verið keypt fyrir 300 milljóna króna hlutafjáraukningu í nóvember 2008.

Pálmi bendir á að hlutafjáraukningin þá hafi farið í sérstaka skoðun og að sá gerningur hafi staðist.

„Síðan getum við endalaust rætt um hversu mikils virði félagið var í árslok 2006. Auðvitað voru markaðsstuðlarnir allt of háir á þessum tíma, þess vegna hrundi kerfið. Ég er fyrsti maðurinn til að viðurkenna það. Þetta voru þó þeir tímar sem voru í gangi. Það er alveg rétt að Iceland Express er ekki eins dýrt og það var árið 2006, en það er einfaldlega vegna umhverfisins.“

Telur fullyrðingar í stefnu rangar

Pálmi mótmælir einnig harðlega því sem fram kemur í stefnu þrotabús Fons á hendur honum, Jóhannesi Kristinssyni og félags þeirra Matthews Holding vegna 4,4 milljarða króna arðgreiðslu sem þeir greiddu sér út úr Fons árið 2007. Í stefnunni, sem var þingfest í morgun ásamt átta öðrum riftunarmálum vegna lána og arðgreiðslna út úr Fons, segir meðal annars að ársreikningur félagsins fyrir árið 2006 sé markleysa og bent á að endurskoðandi félagsins hafi ekki treyst sér til að skrifa upp á hann.

Pálmi segir þessar fullyrðingar einfaldlega rangar. „ Ég mótmæli harðlega fullyrðingum um að ársreikningar Fons vegna ársins 2006 séu markleysa líkt og kemur fram í stefnunni. Þær eru einfaldlega rangar og ekki studdar neinum gögnum. Ég mun að sjálfsögðu leggja fram gögn á réttum vettvangi sem munu hrekja þessi gögn. Efnislega er ársreikningurinn í lagi, það vantar bara upplýsingar um dótturfélög. Það sem er aðalatriðið er að Fons var á þessum tíma fjárhagslega sterkt félag og átti handbært fé. Bæði skráð verðbréf og aðrar auðseljanlegar eignir fyrir tugi milljarða króna sem hefðu nægt til að greiða upp allar skuldir félagsins og dótturfélaga þess á þessum tímapunkti þegar ákvörðun er tekin um arðgreiðsluna. Ég er búinn að láta marga sérfræðinga fara yfir þetta og þeir segja allir það saman. Arðgreiðslur úr félaginu árið 2007 höfðu ekkert með Northern Travel Holding að gera né viðskipti við það félag heldur byggðu á innleystum hagnaði. Þetta stenst því alla skoðun. Síðan mun ég takast á um þetta mál við skiptastjóra Fons á öðrum vettvangi en í fjölmiðlum. Það verður tekist á fyrir dómstólum og ég óttast það ekki neitt.“

Í Viðskiptablaðinu í dag er ítarlega fjallað um málefni tengd Pálma Haraldssyni og Fons. Í umfjöllun blaðsins kom fram að ekki hefði náðst í Pálma vegna vinnslu fréttar um málefni tengd honum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Það er ekki rétt og ljóst að blaðamaður var með rangar upplýsingar um leiðir til að komast í samband við Pálma. Beðist er velvirðingar á því.