Eignarhaldsfélagið Fons hefur ekki áhuga að kaupa þrotabú sænska lággjaldaflugfélagsins FlyMe, sagði Pálmi Haraldsson í samtali við Viðskiptablaðið í gær, en sænska dagblaðið Dagens Industri leiddi að því líkur í frétt á þriðjudaginn.

"Ágiskanir erlendra fjölmiðla um að við séum búnir að gera tilboð í fyrirtækið eru rangar og það er ekki inn í myndinni hjá okkur. Sterling er búið að ná um 75% af þeim markaði sem FlyMe hafði og salan er slík að við erum búnir að ná nánast öllum markaði þeirra. FlyMe varð gjaldþrota klukkan níu um morguninn (þann 7. mars) og Sterling hóf að fljúga klukkan hálftvö um daginn," sagði Pálmi.

"Hins vegar buðum við í ákveðin hluta félagsins sem var verðklúbbur félagsins og vefsíðuna tengda honum," sagði Pálmi.

Í frétt Dagens Industri segir að það muni kosta að minnsta kosti 500 milljónir sænskra króna, eða sem svarar til 4,8 milljarða íslenskra króna, að koma FlyMe til starfa að nýju.

Pálmi og Jóhannes Kristjánsson voru áður stærstu hluthafarnir í FlyMe í gegnum eignarhaldsfélag sitt Fons, með í kringum 20% hlut. Fons seldi hlut sinn í sænska félaginu í september síðastliðnum.

Þegar tilkynnt var um gjaldþrot FlyMe ákvað Sterling að bjóða viðskiptavinum þess ókeypis flug frá þeim stöðum sem viðskiptavinir félagins voru staddir á. Sterling er í eigu eignarhaldsfélagins Northern Travel Holding og Fona er stærsti hluthafinn í eignarhaldsfélaginu, með 44% hlut.