Pálmi Haraldsson, einn þeirra sem slitastjórn Glitnis hefur stefnt í New York fyrir að ryksuga Glitni að innan, segir málssóknina tilhæfulausa með öllu og „gerð í þeim augljósa tilgangi að setja stefndu í þá stöðu að geta ekki varið sig.“ Hann vill að fallið verði frá boðuðum aðgerðum gegn honum án tafar. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Pálmi sendi frá sér rétt í þessu.

Þar segir einnig að í fréttatilkynningu slitastjórnar, sem send var út í morgun, hafi komið fram að honum sé stefnt sem fyrrum stjórnarmanni í Glitni. Það hafi hann aldrei verið. Í stefnu slitastjórnar Glitnis kemur hins vegar fram að Pálma sé stefnt sem fyrrum stjórnarmanni í FL Group og vegna viðskipta félaga í hans eigu, Fons og FS38, við Glitni. Ekkert er minnst á stjórnarsetu í Glitni í stefnunni sjálfri.

Ætlar að leita réttar síns gagnvart formanni slitastjórnar dragi hún ekki aðdróttanir til baka

Stefna slitastjórnar Glitnis er gegn Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, helstu viðskiptafélögum hans og stjórnanda Glitnis. Þeim er gefið að hafa ryksugað bankann að innan frá apríl 2007 og fram í febrúar 2008. Í stefnunni er farið fram á að þeir greiði um 280 milljarða króna vegna þessa.  Auk þess hefur verið farið fram á kyrrsetningu eigna þeirra sem stefnt er, meðal annars Pálma.

Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Pálma, hefur auk þess sent Steinunni Guðbjartsdóttur, formanni slitastjórnar Glitnis, þar sem hann segir umbjóðanda sinn muna leita „réttar síns gagnvart þér persónulega vegna þeirra aðdróttana sem koma fram í fréttatilkynningunni og þú berð ábyrgð á og mun fela lögmönnum á Bretlandi og Bandaríkjunum þá hagsmunagæslu.“

Í bréfi Sigurðar til Steinunnar kemur fram að „slitastjórn Gltins er hér með veittur frestur fram að boðuðum blaðamannafundi á Hilton Nordica hóteli í dag til að falla frá boðuðum aðgerðum gegn umbjóðanda mínum.“

Umræddur blaðamannafundur verður haldinn klukkan 14:30 í dag.