Pálmi Haraldsson er á höttunum eftir spennandi tækifærum í Svíþjóð, segir í frétt sænska blaðsins Dagens Industri.

Eins og kom fram í frétt Viðskiptablaðsins í síðustu viku á eignarhaldsfélagið Fons um 20% hlut í sænska flugfélaginu FlyMe og talið er að félagið hafi áhuga á frekari fjárfestingum í Svíþjóð.

Í frétt Dagens Industri segir að fjárfestingageta Pálma, sem nýlega samþykkti að selja FL Group norræna flugfélagið Sterling fyrir 15 milljarða, sé um fimm milljarðar sænskra króna (38 milljarðar íslenskra króna).

Iceland Express, sem er í sölumeðferð hjá Kaupþingi banka, er verðmetið á bilinu þrír til fjórir milljarðar en félagið er í eigu Pálma og Jóhannesar Kristinssonar.