Eignarhaldsfélagið Fons hefur aukið hlut sinn í Ticket Travel Group í rúmlega 15%, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.

Flöggunarskylda myndast við 15% og verður flaggað fljótlega í sænsku kauphöllinni, þar sem félagið er skráð.

Sérfræðingar í Svíþjóð, sem Viðskiptablaðið hafði samband við, velta fyrir sér hvort Pálmi reyni að taka Ticket Travel yfir. Þeir benda á að félagið sé í dreifðri eignaraðild, en fjöldi minni hluthafa á um 75% bréfa félagins. Sérfræðingarnir segja það því tiltölulega auðvelt að ná yfirráðum í félaginu og taka það yfir. Stærsti hluthafinn, áður en Fons byrjaði að kaupa í félaginu, var Skandia með um 9,54%.

Ticket Travel var rekið með tapi árin 2000-2003, en hagnaður varð af rekstri félagsins árið 2004. Hagnaður eftir skatta í fyrra, fyrstu níu mánuði ársins, nam 11,2 milljónum sænskra króna, eða 89,6 milljónum íslenskra króna. Árið 2004, þegar viðsnúningur varð á rekstri félagsins, fyllti Ticket Travel rúmlega fjögur þúsund Boeing-737 flugvélar.